Ratleikur Rangárþings eystra 2017

2. júní - 1. september 

 

Ratleiknum í Rangárþingi eystra er nú lokið. Yfir 100 þátttakendur skiluðu inn kortum og dregið hefur verið úr þeim hópi: 

Gjafabréf frá  Smáratúni: Bryndís Halla Ólafsdóttir, Gilsbakka 29b.
Gjafabréf frá Lava: Hákon Kári Einarsson, Gilsbakki 33. 
Gjafabréf frá Midgard: Stanislaw Parciak, Öldubakki 37b.
Sundgleraugu: Marssibil Silja, Öldubakki 35b
Árskort í sund: Árný Jóna Sigurðardóttir, Gilsbakki 23. 
Vinninga skal vitja hjá Ólafi Erni í íþróttamiðstöðinni.

 

 

Gönguleiðirnar

 1 Krappi. Margir möguleikar á göngu um svæðið.

ATH. Fara þarf yfir Fiská

Beygt er af Fljótshlíðarveginum (261) inn Vallarveginn (262) rétt fyrir utan Hvolsvöll. Rétt á milli Vallar og Vallahjáleigu er keyrt yfir Fiská á vaðinu við ármótin.
Krappi er hrauntunga sem gengur fram milli Fiskár og Eystri-Rangár, fallegt og gróið svæði. Fallegt er að ganga upp með ánni upp að Tungufossi. Er hann hefur verið skoðaður er för haldið áfram og kemur maður þá brátt að skóginum í Krappa.

2. Írárfoss. 
Írárfoss er í Írá sem á upptök sín í Eyjafjallajökli. Fossinn er skammt frá bænum Ysta Skála, um 30 km frá Hvolsvelli. Beygt er af Þjóðvegi 1 inn á Skálaveg (246) og blasir fossinn við veginum. 

3. Landeyjarhöfn - Landeyjarfjara. 
Landeyjarhöfn er höfn vestan ósa Markarfljóts, um 30 km frá Hvolsvelli. Af þjóðvegi 1 er beygt inn á Landeyjarhafnarveg (254). Hægt er að komast í fjöruna á nokkrum stöðum og útsýnið er frábært yfir til Vestmannaeyja. 

4. Þorsteinslundur
Lundurinn er til minningar um Þorstein Erlingsson skáld, gerður fyrir tilstuðlan Rangæingafélagsins í Reykjavík. Skógarlundurinn var vígður árið 1958, hundrað árum eftir fæðingu Þorsteins. Styttan af Þorsteini var afhjúpuð sama ár, höggvin af sveitungi hans Nínu Sæmundardóttur frá Nikulásarhúsum. Hellirinn í lundinum kallast Gluggahellir, fossinn Drífandi. Lundurinn er merktur við Fljótshlíðarveg um 21 km frá Hvolsvelli.

5. Nauthúsagil. Stutt ganga frá bílastæði og inn gilið.
Eknir eru um 11 kílómetrar inn Þórsmerkurveg (249) frá þjóðvegi 1 og stoppað við Nauthúsaá, rétt innan við Merkurbæina undir Vestur-Eyjafjöllum.
Hægt er að ganga töluvert inn eftir gilinu ef menn eru tilbúnir að vaða eða stikla ána nokkrum sinnum.  Það er vel þess virði því gilið á fáa sína líka.  Innst í gilinu er hár foss en það sem vekur hvað mesta athygli er hinn mikli trjágróður sem skreytir gilbarmana og fæstir búast við að sjá. Inn í þessu gili stendur frægt reynitré, mjög gamalt og gríðarstórt. Ef gengið er inn með gilinu er komið að 3-4 m háum fossi og undir honum er djúpur hylur sem fyllir á milli hamrana.

6. Gunnarshólmi. 
Gunnarshólmi er félagsheimili í Austur-Landeyjum um 18 km frá Hvolsvelli. Félagsheimilið er merkt frá þjóðvegi 1 og er keyrt niður Bakkaveg (253). Við Gunnarshólma er gott tún þar sem gaman er að fara í leiki. 

7. Hvolsfjall. 2 km ganga.
Hvolsfjall er 127 metra hátt fjall við Hvolsvöll og er auðvelt uppgöngu og hentar því vel fjölskyldufólki. Gengið er upp á Hvolsfjall frá Bjallanum hjá Stórólfshvolskirkju og þaðan inn eftir fjallinu eftir göngustíg sem þar hefur verið lagður. Af toppnum heldur síðan stígurinn áfram niður í miðja hlíðina og þar er farið yfir tröppur og genginn stígurinn í gegnum skóginn sem þar er að vaxa upp. Sá stígur nær inn að girðingunni við sumarhúsin í Miðhúsalandi og er þar gengið niður á göngustíg eftir að af fjallinu er komið meðfram Nýbýlaveg.

8. Stóra Dímon. 1 km ganga.

Á þjóðvegi 1, leiðinni til Víkur frá Hvolsvelli, áður en að farið er yfir Markarfljótsbrúna, er beygt til vinstri inn Dímonarveg (250). Þaðan eru nokkrir kílómetrar að Stóra-Dímon. Á Fljótshlíðarveginum (261) er afleggjarinn rétt áður en komið er að Múlakoti, nokkurn veginn til móts við Gluggafoss. Stóri-Dímon á sér systur sem er Litli-Dímon. Nafnið er talið koma úr latínu og merkja tvífjöll, eða tveir eins. Fjallið er 178 metra hátt og er það verðugt verkefni, bæði hjá börnum sem og fullorðnum, að klifra upp á Dímon.

9. Tumastaðir. Mismunandi lengd eftir leiðum.
Tumastaðir eru í Fljótshlíð, um 9 km. frá Hvolsvelli. Þetta er vinsæll útivistarstaður í Rangárþingi eystra. Þarna er fallegt umhverfi, skjólsamt og mikið fuglalíf. Hægt er að velja um mislangar gönguferðir á merktum stígum.

10. Mögugilshellir. Stutt ganga inn Mögugil.

Veifan er við áningarstaðinn þar sem finna má fræðsluskilti um svæðið og bekk.

Er í Þórólfsfelli í Fljótshlíð. Fljótshlíðarvegur (261) er keyrður alveg þangað til komið er veginum heim að Fljótsdal. Þá er beygt til hægri og keyrt 2-3 km meðfram Þórólfsfelli þar til komið er að Mögugili. Hellirinn er í blágrýtisæð og hefur hann myndast vegna gasbólu eða loftþrýstings. Hann er um 15 metra langur. Hellisveggirnir eru þaktir blágrýtistaumum og innarlega í honum eru einhvers konar gúlar um ½ m að þvermáli, allt kolsvart og gljáandi. Hellirinn er náttúrufyrirbrigði, einstakur sem slíkur og ekkert skyldur við hraunhellana okkar. Hellinum hefur verið lýst svo í náttúrufræðiritum: ,,einstakur og ekki vitað um annan svipaðan, hvorki hér á landi né annars staðar á jörðinni”. Hellismuninn liggur neðarlega í Mögugili og niður gilið rennur lítill lækur. Bílastæði eru fyrir neðan gilið.